Innlent

Andlát í gufu: Misbrestur á verklagsreglum

World Class.
World Class.
Eigendur og starfsfólk World Class harma þann atburð sem varð síðastliðinn miðvikudag er maður fannst látinn í heilsuræktarstöð World Class í Laugum samkvæmt tilkynningu sem þeir sendu á fjölmiðla. Maðurinn hafði legið næturlangt í gufunni.

Þar segir að verklagsreglur World Class kveði skýrt á um að starfsfólk gangi úr skugga um að allir viðskiptavinir séu farnir út við lok dags.

„Því miður varð misbrestur á því í þetta skipti og hörmum við það," segir í tilkynningunni.

Svo segir að World Class hafi alla tíð lagt höfuðáherslu á að tryggja öryggi gesta sinna og starfsmanna. Á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins eru hjartastuðtæki til taks ef á þarf að halda og starfsfólk sem hlotið hefur þjálfun í skyndihjálp.

Svo segir í tilkynningunni: „Rannsókn í kjölfar þessa sorglega atburðar leiddi einnig í ljós að öryggisþættir á borð við neyðarhnappa voru í lagi.

Ávallt má þó gera betur og munu stjórnendur og starfsfólk World Class yfirfara verklagsreglur til að tryggja að atburður sem þessi hendi ekki aftur.

Fyrir hönd starfsfólks og eigenda World Class votta ég aðstandendum okkar dýpstu samúð."

Samkvæmt lögreglunni lést maðurinn skyndidauða. Lögreglan rannsakar atvikið ekki sem sakamál.


Tengdar fréttir

Lést í gufunni í World Class - fannst daginn eftir

Karlmaður fannst látinn í gufubaði World Class á miðvikudaginn en maðurinn lést skyndidauða samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Bráðabirgðaniðurstöður krufningar liggja fyrir en þær staðfesta að andlát mannsins hafi ekki borið að með saknæmum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×