Innlent

Sjálfstæðismenn gagnrýna skattahækkunina í borginni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Mynd/ GVA.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Mynd/ GVA.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna skattahækkunina sem samþykkt var á vettvangi borgarstjórnar í dag. Segja þeir að sífellt sé verið að hækka skatta í borginni. Benda sjálfstæðismenn á að farið hafi verið í gríðarlegar skatta- og gjaldskrárhækkanir þegar fjárhagsáætlun var lögð fram rétt fyrir áramót. Þær hækkanir hafi falið í sér 100-150 þúsund króna útgjaldaauka fyrir fjölskyldur í Reykjavík. Nú tveimur mánuðum síðar sé enn lagt til að skattar hækki og útsvar fari í hámark í höfuðborginni. 

„Að þessu sinni er það gert með því að tengja hækkunina beint við hagræðingu í grunnskólum, líkt og Reykjavíkurborg geti ekki staðið vörð um góða þjónustu við börn án skattahækkana. Slík skýring er ósanngjörn gagnvart skólunum og gagnvart foreldrum, sem eiga rétt á því að geta treyst á slíka grunnþjónustu án þess að hún sé sett sem forsenda fyrir ítrekuðum skattahækkunum.   Þessi útsvarshækkun er í anda annarra aðgerða meirihlutans þar sem byrðinni er velt yfir á borgarbúa,“ segja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn telja að mun eðlilegra hefði verið að ná því fjármagni sem uppá vantar í skólamálum með því að hagræða í yfirstjórn eða nýta hluta af þeim 660 milljónum sem enn eru á liðnum óráðstafað samþykkt í fjárhagsáætlun. Að stilla þessari ákvörðun þannig upp að annað hvort verði kennsla skert við börn eða að skattar hækkaðir getur ekki talist sanngjörn framsetning gagnvart borgarbúum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×