Innlent

Alltof slakar sýklavarnir

Slakar sýklavarnir eru á hjúkrunarheimilum á Íslandi að sögn formanns Sjúkraliðafélags Íslands. Of fáir sjúkraliðar eru á vakt og menntun ekki metin að verðleikum. Landlæknir treystir á almenna skynsemi.

„Þegar Noro-veiran geisaði voru dæmi um að ófaglærðir starfsmenn í þvottahúsi voru sendir úr því að þvo Noro-sýktan þvott yfir í eldhússtörf á öldrunarheimilum, án þess að þurfa að skipta um föt eða baða sig á milli. Nú eru sum hjúkrunarheimili hætt að skaffa starfsfólki vinnubuxur í sparnaðarskyni. Þá þvær starfsfólk eigin buxur heima hjá sér; þvert á heilbrigðisreglur sem kenndar eru í hjúkrun um að sýklar séu ekki bornir inn á heimili fólks og öfugt. Þetta er því sóðaskapur á hæsta stigi og eftirlitsskyldu vegna smitleiða ekki gætt," segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, um slakar sýklavarnir á hjúkrunarheimilum.
„Bráðsmitandi Noro-veira er orðin krónískt vandamál á öldrunarstofnunum en er nú líka komin út í þjóðfélagið því ekki hefur verið passað upp á grunnreglur hreinlætis. Við höfum sent Landlæknisembættinu skýrslu norrænna sjúkraliða sem hingað komu til starfa og er orða vant yfir skorti á fagmennsku sem viðgengst á íslenskum hjúkrunarheimilum og þar sem ófaglærðir ganga í störf fagfólks athugasemdalaust.

Þannig eru vaktir mannaðar að mestu ófaglærðu starfsfólki á fínustu hjúkrunarheimilum landsins, ótalandi á íslensku og með engar forsendur fyrir hreinlæti til að sinna sjúku fólki en ber sýkla á milli með löngum neglum, skartgripum og hári langt niður fyrir augu," segir Kristín sem hefur áhyggjur af íbúum hjúkrunarheimila miðað við hversu fáliðað er þar af fagfólki.

„Á Hrafnistu í Hafnarfirði eru tveir starfsmenn og hlaupastelpur á vakt á vistunardeild um helgar til að hlaupa á milli þriggja hæða og sinna 140 manns, þar af 70 í hjúkrunarrýmum. Þar á bæ segjast menn ekki hafa þörf fyrir sjúkraliða með sérmenntun í öldrun, en stór hópur sjúkraliða hefur lokið heilsárs viðbótarnámi í hjúkrun aldraðra. Á mörgum stofnunum er ekki gerður einn einasti greinarmunur á því hvort eintómir ófaglærðir séu að störfum eða sjúkraliðar með þriggja ára sérnám í hjúkrun, en í Danmörku, til samanburðar, má ófaglærður starfsmaður kynna sér starfið í ár, þar til hann þarf að mennta sig til að mega vinna meira," segir Kristín og upplýsir að sjúkraliðar búi við grimmt andrúmsloft þar sem niðurskurðarhnífurinn bliki á lofti og yfirmenn kvarti yfir því að kjarasamningurinn sé alltof dýr.

„Því þora þeir hvorki að kvarta né verða veikir af ótta við að missa vinnuna og ef staða sjúkraliða losnar er hún ekki auglýst heldur ráðið ófaglært fólk í staðinn. Álag á fagmenntað heilbrigðisfólk er því ómanneskjulegt og bjóðum við ókeypis sálgæslu fyrir sjúkraliða til að þeir hafi stað til að vinda ofan af sér, því þeim líður mörgum mjög illa yfir ástandinu. Allt býður þetta hættunni heim og ég er óttaslegin að starfsfólk nái ekki að halda utan um þá mörgu sjúklinga sem það ber ábyrgð á, ekki síst vegna sýkingarhættu, enda þolir eldra fólk mjög illa að verða veikt og gjarnan dánarorsök þess veikindi sem yngra fólk hristir af sér."

Treysta á almenna skynsemi


Lögum samkvæmt á Landlæknisembættið að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu með ráðgjöf, eftirliti og upplýsingasöfnun.

„Smitleiðir og sýkingarhættu, sem Kristín vitnar um, þarf Landlæknisembættið að skoða í samráði við sóttvarnalækni. Ekki er mælt með að heilbrigðisstarfsfólk sé með skartgripi né langar neglur vegna óhreininda og smithættu, en við treystum á almenna skynsemi þegar kemur að hreinlæti á hjúkrunarheimilum," segir Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri gæða- og lýðheilsusviðs Landlæknisembættisins. "Þekkt er að læknar séu bara á slopp utan yfir fötum sínum á vakt, en klæðnaður skyldi alltaf fara eftir aðstæðum og vissulega eru aldraðir viðkvæmari fyrir sýkingum og mega verr við því að veikjast."

Að sögn Önnu Bjargar hefur Landlæknisembættið nýlega gert úttekt á öllum hjúkrunarheimilum landsbyggðarinnar og er nú að byrja á höfuðborgarsvæðinu.

„Okkar mottó er að halda tilteknu mönnunarhlutfalli faglærðra og á næstu vikum mun nýtt mönnunarmódel líta dagsins ljós. Á sama tíma þurfum við að vera raunsæ til að halda úti ákjósanlegri mönnun í fjárskorti, en reynum að finna skynsamlegt starfshlutfall sem uppfyllir tiltekin gæði og öryggi á hjúkrunarheimilum," segir Anna Björg, sem hvetur fagfélög heilbrigðisstarfsfólks að senda inn nafnlausar ábendingar svo koma megi í veg fyrir þöggun.

„Það á ekki að eiga sér stað að ófaglært fólk sé ráðið í skilgreindar stöður fagfólks og ófaglærðir eiga aldrei að vinna einir í hjúkrun heldur alltaf með hjúkrunarfagfólki. Þetta reynum við að vakta og höfum einnig farið fram á að ófaglærðir í umönnun tali íslensku," segir Anna Björg sem óskar reglulega eftir vaktaskýrslum frá hjúkrunarheimilum til að sjá hvert hlutfall mönnunar er.

„Því miður höfum við ekki fjármagn til að senda fólk óvænt inn á hjúkrunarheimilin svo athuga megi mönnun hverju sinni og verðum við að treysta fólki til að segja okkur satt. Við úttekt munum við skoða þetta vel og gera athugasemdir ef mönnun er ekki æskileg, rétt eins og við þurfum að gera af og til nú."

thordis@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×