Innlent

Dæmdir fyrir hrottalega árás á gamlan mann með ungbarn

Axel Karl og Viktor Már við aðalmeðferð í Barðastrandarmálinu svokallaða þar sem þeir voru einnig dæmdir
Axel Karl og Viktor Már við aðalmeðferð í Barðastrandarmálinu svokallaða þar sem þeir voru einnig dæmdir
Tveir rúmlega tvítugir menn voru  í Héraðsdómi Reykjaness í morgun dæmdir til fangelsisvistar fyrir aðild sína að hrottalegri árás á 64 ára gamlan karlmann, eiginkonu hans og dóttur í Reykjanesbæ.

Mennirnir sem um ræðir heita Axel Karl Gíslason, sem dæmdur var til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar, og Viktor Már Axelsson sem var dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Axel og Viktor voru einnig dæmdir fyrir fjárkúgun eftir að þeir innheimtu skuld sem þeir töldu barnabarn mannsins í Reykjanesbæ skulda sér. Maðurinn var staddur fyrir utan hús sitt og var að setja kornabarn dóttur sinnar inn í bíl þegar piltarnir réðust að honum. Var honum hótað lífláti með hnífi auk þess sem hann var kýldur í andlit og ítrekað sparkað í líkama hans og höfuð.

Þriðji maðurinn var dæmdur fyrir að hóta lögreglumönnum og fjölskyldu þeirra lífláti. Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi.

Sá fjórði var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir aðild sína að þjófnaði en hann rauf þar með skilorð.

Axel og Viktor afplána nú fangelsisdóm vegna þáttar síns í Barðastrandarmálinu svokallaða þar sem gengið var í skrokk á öldruðum úrsmið og honum haldið föngnum á heimili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×