Innlent

Ungmenni vistuð með fullorðnum föngum

Íslensk ungmenni, sem brjóta af sér og þurfa að sæta fangelsisvist, eru ekki alltaf vistuð aðskilin frá fullorðnum föngum. Að sögn Petrínu Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóra Barnaheilla, eru allt að þrjú ungmenni á aldrinum fimmtán til sautján ára vistuð með fullorðnum föngum á ári hverju hér á landi. Hún segir fyrirkomulagið ekki hjálpa þessum einstaklingum að hverfa af afbrotabrautinni og að mikilvægt sé að bjóða þeim viðeigandi úrræði og meðferð.

„Fyrir börnin þá er þetta náttúrulega ekki gott að vera vistuð með fullorðnum föngum sem eru komnir lengra á sínum afbrotaferli," segir Petrína.

Í skýrslu um stöðu barna á Íslandi, sem gefin var út í dag, kemur fram að vistunarmál ungra íslenskra afbrotamanna er stærsta hindrunin sem stendur í vegi fyrir lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hér á landi, en samkvæmt 37. grein sáttmálans ber að aðskilja unga fanga frá fullorðnum. Aðspurð segir Petrína það afar brýnt að leysa þessi mál svo að hægt verði að binda sáttmálann í lög hér á landi sem fyrst.

„Lögfestingin þýðir í reynd að það er hægt að sækja mál fyrir dómstóla með tilvísun í barnasáttmálann og til þess að íslensk stjórnvöld geti lögfesta hann þá verða þau að hafa hlutina nokkuð á hreinu, svo þeir séu nokkuð öryggir að lög barnasáttmálans séu í samræmi við íslensk lög og þetta er ein af hindrununum á þeirri leið," segir Petrína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×