Innlent

Lækkun tryggingagjalds forsenda fyrir hækkun lágmarkslauna

MYND/Pjetur
Lækkun tryggingagjalds er forsenda þess að Samtök atvinnulífsins fallist á hækkun lágmarkslauna að kröfu Alþýðusambandsins. Kjarasamningar til þriggja ára eins og stefnt er að verða ekki að veruleika felli þjóðin Icesave samningana í atkvæðagreiðslunni á laugardag.

Það munaði hársbreidd að slitnaði upp úr kjaraviðræðum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gærkvöldi vegna kröfu Alþýðusambandsins um hækkun lægstu launa á þriggja ára samningstíma upp í 200 þúsund krónur, en þau eru nú 165 þúsund. Hækkunin nemur um 21 prósenti en samkvæmt heimildum fréttastofunnar er einnig gert ráð fyrir að almennar launahækkanir verði á bilinu ellefu til tólf prósent.

Nú kynna einstök landssambönd ASÍ niðurstöður viðræðnanna í gær fyrir félagsmönnum sínum og Samtök Atvinnulífsins kynna stöðuna fyrir sínum aðildarfélögum. Tryggingagjald sem stendur undir atvinnuleysistryggingarsjóði var hækkað verulega fyrir tveimur árum til að standa undir auknu atvinnuleysi. Ein forsenda þess að Samtök atvinnulífsins fallist á umtalsvera hækkun lægstu launa er að gjaldið verði aftur lækkað í áföngum.

Í viðræðunum hefur verið lögð áhersla á að ná langtíma samningi, eða til þriggja ára, sem héldist í hendur við atvinnuuppbyggingu. Næst komandi laugardag greiðir þjóðin atkvæði um Icesave samkomulagið. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gæti haft áhrif á samningana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×