Innlent

Þurftu að flýja með litla drenginn vegna hótana

Karen D. Kjartansdóttir skrifar
Móðir drengs á áttunda ári, sem talið er að hafi verið gróflega misnotaður af föður sínum og frænda, hefur þurft að flýja heimili sitt með drenginn vegna hótana frá mönnunum tveimur.

Að sögn Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var húsleit gerð hjá mönnunum 31. mars og hald lagt á tölvubúnað mannanna. Verið er að fara yfir gögnin í tölvunum en grunur leikur á að mennirnir hafi myndað kynferðislegt ofbeldi sem þeir eru grunaðir um að hafa beitt litla drenginn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa móðir drengsins og stjúpi þurft að flýja heimili sitt með drenginn og börn sem þau eiga saman vegna hótana frá mönnunum tveimur. Telja þau að það hætta geti stafað af mönnunum þegar þeim verður hleypt úr gæsluvarðhaldi.

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um málið og kemur þar fram að á heimilum mannanna fundust fíkniefni, bæði maríjúana og hvítt efni sem talið er vera kókaín.

Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald skömmu eftir að þeir voru handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×