Innlent

Nefbraut stúlku og hrinti annarri - man ekkert vegna athyglisbrests

Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness.
Rúmlega tvítugur maður var dæmdur fyrir líkamsárás gegn tveimur stúlkum með ársmillibili í dag. Maðurinn nefbraut aðra stúlkuna í september árið 2009. Atvikið átti sér stað í Bankastræti í Reykjavík en hann skallaði hana að tilefnislausu.

Sjálfur sagði hann fyrir dómi að hann mundi illa eftir atvikinu þar sem hann væri með athyglisbrest og gleymi því sem fyrir hann ber auðveldlega.

Seinni árásin átti sér stað í júlí árið 2010. Þá hrinti maðurinn stúlku í Hverfisgötuna með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka á handlegg, tognun í olnboga og í mjóbaki.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars:

„Þá er einnig til þess að líta að ákærði hefur lýst því að vegna athyglisbrests sem hann er haldinn þá eigi hann til að gera hluti sem hann gleymi strax að hafa gert auk þess sem neitun hans á sekt er fjarri því að vera eindregin. Í þessu ljósi telur dómari að ákæruvaldinu hafi tekist sönnun á sekt ákærða og verður hann því sakfelldur fyrir það sem hann er sakaður um í ákæru."

Maðurinn hefur nokkrum sinnum áður gerst brotlegur við hegningarlög. Því var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu sjö mánaða refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi maðurinn almennt skilorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×