Innlent

Forsætisráðherra útilokar ekki þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnun

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra segir koma til greina að setja fiskveiðistjórnunarmálin í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða tillögum stjórnlagaráðs þegar þær liggi fyrir. Útvegsmenn megi ekki komast upp með að koma í veg fyrir gerð kjarasamninga vegna þessa máls.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum okkar í gær að reyndur stjórnmálamaður eins og forsætisráðherra hlyti að gera sér grein fyrir að ekki yrði leyst úr deilu samtakanna við stjórnvöld um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu án samninga. En kjaraviðræður eru enn í fullkominni óvissu vegna þessa máls.

„Vilhjálmur Egilsson er ekki bara reyndur stjórnmálamaður, heldur er hann líka reyndur á vinnumarkaðnum fyrir atvinnulífið og verið í forsvari þess lengi. Hann veit jafnvel og ég að þegar uppi eru deilumál þurfa menn að hafa raunsæi efst í huga og hverju er hægt að ná fram í raunveruleikanum," segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Það hafi verið sjónarmið stjórnvalda og Alþýðusambandsins að ekki eigi að blanda þessum málum saman. Það sé ekki forsvaranlegt að LÍÚ séu að hafa launahækkanir af launafólki um næstu mánaðamót vegna þessa.

„Þannig að ég vona að þeir sjái að sér og LÍÚ fái ekki að bregða fæti fyrir svona mikilvæga kjarasamninga," segir Jóhanna.

Forsætisráðherra segir málið fara í ferli inn á Alþingi þar sem LÍÚ og Samtök atvinnulífsins hafi aðgang að málinu eins og aðrir hagsmunaaðilar. Ómögulegt sé að spá um hvað málið taki langan tíma á Alþingi.

- Finnst þér þetta vera mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu?

„Já það finnst mér. Mér finnst það vel koma til greina að skoða það. Þetta er og hefur verið mikið ágreiningsmál. Ég hef velt fyrir mér hvort það væri kannski rétt að þegar stjórnlagaráð lýkur störfum og tillögur þess fara til þjóðaratkvæðagreiðslu, kæmi til skoðunar að taka fiskveiðistjórnunarkerfið í leiðinni," segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×