Innlent

Díoxín enn yfir mörkum í Vestmannaeyjum

Vestmannaeyjabær mun áfram vinna að úrbótum með sérstaka áherslu á að ná niður rykmengun
Vestmannaeyjabær mun áfram vinna að úrbótum með sérstaka áherslu á að ná niður rykmengun Mynd / Óskar
Mæling umhverfisstofnunar á mengun í Sorporkustöð Vestmannaeyja bendir til þess að all nokkur árangur hafi náðst í að hefta útblástur þeirra mengandi efna sem getið er um í starfsleyfi stofnunarinnar. Af þeim viðmiðunum sem getið er um í starfsleyfi stöðvarinnar er það einungis ryk sem er yfir mörkum.

Í viðbót við þau viðmið sem gefin eru í starfsleyfi Sorporkustöðvarinnar var mælt brennisteinsdíoxíð, vetnisflúoríð, nituroxíð og díoxín. Í öllum tilvikum eru mælingar innan viðmiða ef frá er skilið mæling á díoxíni sem enn er hátt yfir viðmiðum.

 

Sýni sem Matvælastofnun tók úr búfé á Heimaey reyndist hinsvegar ekki vera með díoxínmengun miðað við gildi sem fengust í mælingum á kjöti sem fóru fram víðs vegar um landið árin 2003 og 2004.

Aðgerðir til að sporna við mengun

Í morgun funduðu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar og Umhverfisstofnunar, meðal annars vegna niðurstöðu þessara mengunarmælinga í Sorporkustöð Vestmannaeyja sem unnin var í mars 2011 af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Einnig var rætt um mælingar á díoxsíni í sauðfé sem unnin var af Matvælastofnun Íslands, og starfsleyfi Sorporkustöðvar Vestmannaeyja.

„Vestmannaeyjabær mun áfram vinna að úrbótum með sérstaka áherslu á að ná niður rykmengun. Til þess að flýta þeirri vinnu og gera hana markvissari hefur Vestmannaeyjabær samið við Þór Tómasson sérfræðing hjá verkfræðistofunni Mannvit.

Á yfirstandandi ári mun Vestmannaeyjabær draga úr heildarlosun allra mengandi efna um að minnsta kosti 60%. Þaðan mun áfram verða haldið ef þörf verður á þar til fullum árangri er náð. Meðal þess sem unnið er að er frekari flokkun sorps, kaup á auknum mengunarvörnum við útblástur, bæting á brensluferli og ýmislegt fleira," segir í tilkynningu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×