Innlent

Atvinnuleitendur fá námstækifæri

HMP skrifar
Katrín Jakobsdóttir kynnti verkefnið í morgun. Mynd/ Daníel.
Katrín Jakobsdóttir kynnti verkefnið í morgun. Mynd/ Daníel.
Ríkisstjórnin kynnti í morgun aðgerðir til að skapa námstækifæri fyrir eitt þúsund atvinnuleitendur á næstu þremur árum. Sjö milljarðar fara í verkefnið sem eitt og sér er ætlað að draga úr atvinnuleysi um eitt prósent.

Átakið á að tryggja öllum umsækjendum undir tuttugu og fimma ára aldri um nám á framhaldsskólastigi aðgang að námi. Að auki á að skapa námstækifæri fyrir allt að eitt þúsund atvinnuleytendur næsta haust og næstu skólaár þar á eftir.

Áætluð útgjöld ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa nema tæpum sjö milljörðum króna á árunum 2011 til 2014 og hefur þegar verið gengið frá fjármögnun þessa árs við Atvinnuleysistryggingasjóð.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að eftir efnahagshrunið hafi þurft að vísa töluverðum fjölda nemenda frá framhaldsskólum vegna niðurskurðar í menntakerfinu.

„Á sama tíma og stærsti hópur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru ekki búnir að ljúka við framhaldsskóla, þannig að við stefnum að því að opna framhaldsskólann fyrir þá sem uppfylla skilyrðin undir 25 ára aldri," segir Katrín. 

Þá segir hún að boðið verði upp á raunhæfnimat fyrir þá sem unnið hafa til dæmis við ýmsar iðngreinar og orðið sér út um reynslu, sem verði metin til eininga inni í framhaldsskólunum.

„Við stefnum að því að því að allir þeir sem uppfylli þau skilyrði geti lokið því ferli - það er auðvitað verulegur hópur fólks, sérstaklega í iðngreinunum, sem hefur í raun og veru alla burði til þess að ljúka námi en gerir það ekki vegna þess að við höfum ekki haft fjármuni til að fjármagna þetta mat," segir Katrín.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að með þessu sé verið að reyna að snúa atvinnuleysinu upp í sóknarfæri.

„Við skulum vona að okkur takist að vinna þannig úr þessu að þetta komist í gang í haust og hjálpi ungu námsfólki þar að segja því fólki sem hefur áhuga á að vera í námi og hefur til þess getu og burði að koma þá inn í nám í stað þess aað vera á atvinnuleysisskrá," segir Guðbjartur. 

Þá segir Guðbjartur að þetta úrræði muni draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs um leið og útgjöld verði aukin til menntunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×