Innlent

95% skólasókn 16 ára ungmenna

Mynd úr safni / GVA
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2010 er 95%, sem er sama hlutfall og haustið 2009. Á milli áranna 2008 og 2009 hafði orðið talsverð fjölgun nemenda. Um 88% 17 ára nemenda sækja skóla, sem er fækkun um tvö prósentustig frá fyrra ári. Um 82% 18 ára ungmenna stunda nám, og fjölgaði um eitt prósentustig í þeim aldursflokki.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands.

Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á Austurlandi og Norðurlandi eystra eða 96%, en fæstir á Vestfjörðum (91%) og á Suðurnesjum (92%).

Jafnframt fækkar eldri nemendum á framhaldsskólastigi frá fyrra ári. Þannig fækkar nemendum í öllum 5 ára aldursflokkum frá 15 til 54 ára frá hausti 2009. Sú fækkun helst í hendur við umtalsverða fækkun nemenda í öldungadeildum (45,5%) og fjarnámi (18,8%) á framhaldsskólastigi frá hausti 2009.

Þriðjungur í starfsnámi

Um 66.0% nemenda á framhaldsskólastigi stunda nám á bóknámsbrautum en 34.0% eru í starfsnámi. Hlutfall nemenda í starfsnámi er mun hærra meðal karla en kvenna, eða 39,0% á móti 29,1% hjá konum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðasta áratug, þegar það hefur verið 33,8% til 38,5%.

Nemendum fækkar um 1,6%

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 44.949 haustið 2010 og hafði fækkað um 435 nemendur frá fyrra ári, eða 1,6%. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendum ofan grunnskóla fækkar á milli ára frá endurskoðun nemendaskrár Hagstofu Íslands haustið 1997. Á framhaldsskólastigi stunduðu 25.090 nemendur nám og fækkaði um 4,8% frá fyrra ári og á viðbótarstigi voru 990 nemendur. Á háskólastigi í heild voru 18.869 nemendur. Þar fjölgaði nemendum um 4,5%, þar af um 52,7% á doktorsstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×