Innlent

Tveir skipverjar á litlum fiskibáti hætt komnir

Tveir skipverjar á litlum fiskibáti voru hætt komnir eftir að vélin bilaði í bát þeirra, Kópanesi frá Hvammstanga,  þegar þeir voru staddir á Húnaflóa í nótt og bátinn tók að rekan undan norðaustanátt, í átt að Óðinsboða.

Þeir kölluðu á hjálp og var björgunarskip frá Skagaströnd og fiskibátar frá Djúpuvík og Norðurfirði kölluð út. Þyrla Landhelgisgæslunnar var líka send norður og var til taks ef hífa þyrfti mennina frá borði.

En undir morgun, þegar báturinn var í aðeins tveggja sjómílna fjarlægð frá Boðanum, snérist vindátt til suðvesturs og fór bátinn þá að reka frá. Rétt fyrir klukkan sex kom svo annar fiskibáturinn að bilaða bátnum og tók hann í tog.

Hinn fiskibáturinn hélt þá þegar til Norðurfjarðar, en einn skipverjanna hafði nefbrotnað og skorist í andliti þegar báturinn fékk á sig ólag, þegar hann  var á leið sinni að bilaða bátnum. Manninum var ekið til Gjögurs, þar sem þyrlan beið, og flutti hann á heilsugæslustöðina á Hólmavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×