Innlent

Hanna Birna: Sameiningin þvinguð í gegn

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Borgarráð samþykkti í morgun tillögur um samrekstur og sameiningu skóla, leikskóla og frístundaheimila í Reykjavík. Fulltrúi minnihlutans segir meirihlutann þvinga í gegn sameiningar í algjörri andstöðu við borgarbúa.

Tillögurnar verða teknar fyrir á fundi borgarstjórnar á morgun, en það er nánast formsatriði þar sem borgarráð hefur þegar samþykkt þær.

Yfir 12.000 íbúar í Reykjavík hafa skorað á borgarstjórn og rúmlega 90 prósent umsagna vegna málsins voru neikvæðar þar sem ítrekað hefur verið að draga beri tillögurnar til baka.

Sameina á yfirstjórnir 24 leikskóla borgarinnar í ellefu. Einnig eru umfangsmiklar sameiningar í yfirstjórn grunnskóla. Frestað var sameiningum skóla í Breiðholti og Vesturbæ en þær breytingar höfðu mætt harðri andstöðu. Þá var lagt til að sameina yfirstjórn á menntasviði og ÍTR undir einn sviðsstjóra.

„Við teljum augljóst miðað við þessar tillögur sem lagðar voru fram í dag að meirihlutinn ræður einfaldlega ekki við brýnustu verkeni borgarbúa, það eru hérna þvingaðar í gegn skólasameiningar um alla borg í algjörri andstöðu við allt foreldrasamfélag og starfsfólkið hér í Reykjavíkurborg," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Ég vildi óska að þessi meirihluti myndi einhverntíma setja ákvarðanir og verkefni í sáttafarveg en ekki átakafarveg, það er eins og það sé lenskan hér og línan hér og það er vont," segir Hanna.

Hanna Birna segir að erfitt verði að ná fram þeirri 300 milljóna hagræðingu sem meirihlutinn ætli sér að ná með þessu.

„Ég held að þeir séu ekki þessum vanda vaxnir, og mér finnst þessi atburðarás í kringum þessa ákvarðanatöku sýna það að þeir geta ekki tekið á brýnustu hagsmunamálum borgarbúa, allavega ekki svo að sómi sé af," segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×