Innlent

Hjörtur Howser fær ekki að búa á æskuheimilinu

Dæmi eru um að bankar leysi til sín húseignir á minna en sem nemur helmingi fasteignamats og miði leigu á húsnæðinu til fyrri eigenda við fullt fasteignamat. Sú er raunin hjá tónlistarmanninum Hirti Howser en beiðni bankans um að bera hann út úr húsnæði sínu var samþykkt í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Hjörtur Howser er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Nú sér hann fram á að missa æskuheimili sitt úr höndunum.

„Ég og sambýliskona mín ætluðum að gera þetta að okkar eigin heimili og vorum langt komin með það þegar allar forsendur brustu í bankahruninu," segir Hjörtur.

Hjörtur og sambýliskona hans eru í dag skilin. Eftir sitja skuldir og hálfklárað hús en eignin er skráð á sambýliskonuna.

„Bankinn er búinn að leysa til sín húsið, sannarlega, á nauðungaruppboði. Það sem að ég hugðist reyna og ekki er útseð með enn er að fá að dvelja í húsinu einhvern tíma."

Beiðni frá Íslandsbanka um að Hjörtur verði borinn út úr húsi sínu var samþykkt í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Bankinn leysti húsið til sín á nauðungarsölu í nóvember og vonast Hjörtur til þess að fá að leigja húsið af bankanum til nóvember líkt og úrræði ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir.

„Það er erfitt að standa út á bílastæði með húsgögnin sín og drenginn og eiga ekki í nein hús að vernda," segir Hjörtur.

Íslandsbanki leysti húsið til sín á tólf milljónir en Hjörtur segir að þegar komi að því að ræða leiguverð fyrir hann miði bankinn nánast við fullt fasteignamat sem er í dag 33,4 milljónir.

„Mér finnst auðvitað 12 milljónir fráleit upphæð í hús sem ég hef eytt hálfri ævinni í að reisa frá grunni og er í raun endurnýjað allt. En örugglega er þetta ekki í þeirra huga markaðsvirði. það kæmi mér á óvart ef bankarnir telja eignirnar ekki meira virði þegar það snýr að þeim en ætla síðan að reikna allt upp í topp þegar kemur að okkur," segir Hjörtur.

„Það snjóar pínulítið á okkur. Það skiptast á skin og skúrir í veðrinu og lífinu. Ég er dapur," segir Hjörtur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×