Innlent

Skóla- og frístundamál sameinuð undir einu sviði

Borgarráð hefur samþykkt að hafinn skuli undirbúningur að sameiningu leikskóla- og menntasviðs. Ennfremur verða þau verkefni sem nú eru á  skrifstofu tómstundamála á íþrótta- og tómstundasviði hluti af sameinuðu sviði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en umrædd verkefni eru meðal annars umsjón með frístundamiðstöðvum, frístundaheimilum,  félagsmiðstöðvum og öðru tómstundastarfi barna og ungmenna.

Tillögurnar verða til umræðu og afgreiðslu á fundi borgarstjórnar á morgun segir ennfremur. „Börn og ungmenni eiga að vera í fyrirrúmi í allri þjónustu Reykjavíkurborgar. Þjónustan á að miða að innihaldsríkum starfsdegi sem er barnvænn en einnig  fjölskylduvænn. Mikilvægt er að líta svo á að allt umhverfi barna og ungmenna, hvort heldur sem um er að ræða á frístundaheimili eða í skóla, sé eitt lærdómssamfélag þar sem skilningur og virðing fyrir velferð barna og þörfum fjölskyldna er ríkjandi. Til að ná því markmiði er mikilvægt að brjóta upp hefðbundin skil á milli leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs og vinna markvisst að því að samþætta faglegar áherslur í stefnumótun og starfi.“

Þá segir að stöður sviðsstjóra menntasviðs og leikskólasviðs verða lagðar niður og staða sviðsstjóra sameinaðs sviðs auglýst laus til umsóknar. „Borgarstjóra hefur verið falið að skila tillögu að sameiningu ásamt umsögn stjórnkerfisnefndar í byrjun maí en stefnt er að því að nýr sviðsstjóri taki til starfa eigi síðar en 1. júlí næstkomandi.“

„Markmið með sameiningu sviða sem þjóna börnum og ungmennum á leikskólaaldri, grunnskólaaldri og í frítímaþjónustu til 18 ára aldurs er í fyrsta lagi að stuðla að heildstæðri faglegri stefnumótun og þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Í öðru lagi er markmiðið að efla yfirsýn yfir málaflokkinn, auka samræmingu og samfellu á milli þjónustuþátta. Í þriðja lagi er markmiðið að efla þverfaglegt samstarf starfsfólks til að styrkja og samþætta þá nauðsynlegu fagmennsku sem er forsenda heildstæðrar þjónustu.   Með sameiningu sviðanna næst fram faglegur ávinningur, samþætting starfa og öflug heildarsýn á þjónustuna sem aftur skilar fjárhagslegum ávinningi þegar innleiðingu sameiningar er lokið,“ segir að endingu og því bætt við að fundur hafi verið haldinn með starfsfólki sviðanna sem um ræðir, þar sem borgarstjóri kynnti þær breytingar sem væru í vændum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×