Innlent

Kvartað undan njósnum í bakaríi Jóa Fel

Símon Örn Birgisson skrifar
Jói Fel.
Jói Fel. MYND/GVA
Starfsmaður hjá bakaríi Jóa Fel kvartaði til Persónuverndar undan njósnum eftir að myndavél var sett upp í starfsmannaaðstöðu í bakaríinu.

Í bréfi frá starfsmanninum segir að sett hafi verið upp myndavél í smurinu, en það mun vera sá staður sem samlokur eru útbúnar. Starfsfólk hafi ekki verið látið vita og engar útskýringar gefnar á myndavélinni. Engar merkingar séu í kringum myndavélina og starfsfólk hafi ekki hlotið fræðslu um ástæður þess að vélin hafi verið sett upp eða markmið vöktunarinnar.

Starfsmaðurinn segir dæmi um að eigandi bakarísins sitji heima hjá sér og "njósni" um starfsfólk. „Starfsfólki finnst það beitt óréttlæti og finnst óþolandi að vinna undir sífelldri pressu," segir í bréfi starfsmannsins.

Í útskýringum frá bakaríinu segir að þeir hjá Jóa Fel hafi ekkert að fela. Vélin hafi ekki verið sett upp til að njósna um starfsmenn heldur hafi bakaríið lent í því að starfsmenn segi ekki alltaf satt og rétt frá þegar kvartanir berist til bakarísins. Með myndavélinni sé hægt að vakta hverjir svara í símann á hverjum tíma.

Persónuvernd úrskurðar að vöktunin sé ekki óheimil en nauðsynlegt sé að upplýsa starfsmenn um það að þeir séu undir eftirliti.

Úrskurð Persónuverndar má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×