Innlent

Forsvarsmenn ASÍ reiðubúnir til að gera samning til skemmri tíma

Sigurður Bessason
Sigurður Bessason Mynd/GVA
Forsvarsmenn ASÍ eru reiðubúnir til að gera samning við SA til skemmri tíma ef ákvæðið um yfirlýsinguna gagnvart ríkisstjórninni verður tekið út. Þetta segir Siguður Bessason, formaður Eflingar.

Sigurður segir skammtímasamninginn hafa verið gerðan í fyrrinótt og að allir hefðu verið sammála um hvað í honum átti að vera. Á síðustu skrefunum hafi SA bætt við klausunni um yfirlýsinguna, en þegar kemur að skammtímasamningsgerð hafi ASÍ sína eigin skoðun á því hvernig ríkisvaldið hafi staðið að málum og því út úr myndinni að koma að sameiginlegri yfirlýsingu með SA um þá hluti. Sigurður kveðst hafa áhyggjur af því hversu stórt hlutverk sjávarútvegsmálin spili í deilunni.

„Við höfum allan tímann haft áhyggjur að þetta myndi leiða til þeirrar niðurstöðu sem kom fram í gær. Auðvitað höfum við ákveðna sýn að það skorti á samráð, vissulega er það þannig að ríkisvaldið hefur ekkert hjálpað til í þessu máli, að taka samninga í gíslinguna eins og þarna er gert er óásættanlegt,“ segir Sigurður.

Fundað verður innan verkalýðshreyfingarinnar strax eftir helgi og samninganefndir kallaðar saman til þess að átta sig á þeirri stöðu sem nú er komin upp. Sigurður segir nýjan kafla vera að taka við. Hann kveðst ekki bjartsýnn á framhaldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×