Innlent

Betra að taka ákvarðanir þegar andað er með nefinu en öskrandi

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, gagnrýnir vinnubrögð Samtaka atvinnulífsins og segir að forsvarsmenn samtakana hafa algjörlega komið mönnum í opna skjöldu með kröfum sínum á fundinum í Karphúsinu í gær.

„Um miðjan daginn í gær þá höfnuðu SA að skrifa undir langa samninginn og vildu bara skrifa undir skammtímasamninginn en lögðu síðan ofan á hann pólitíska yfirlýsingu sem er einfaldlega ólöglegt að láta fylgja með," segir hann.

En hvað tekur núna við?

„Mönnum var nú orðið það heitt í hamsi þarna í gærkvöldi og það var ákveðið að það væri betra að taka ákvarðanir þegar maður andar með nefinu heldur en öskrandi og menn ákváðu að fara heim. Það er vonandi að SA menn fari niður í Karphús, hann liggur á borðinu hjá sáttasemjara þessi samningur og taki þessa yfirlýsingu ofan af honum. Það liggur penni ofan á samningnum hjá sáttasemjara og það er ekkert mál að skreppa niður eftir og skrifa undir þetta," segir hann.

Ef ekki verður skrifað undir segir Guðmundur stéttarfélögin fara í það hvert fyrir sig að vísa sínum deilum til sáttasemjara, sem væri fyrsta skrefið til þess að koma málum í þann farveg að geta farið að slást af hörku. Hann segir þetta verstu leiðina sem mun leiða til þess að ákveðnir hópar, sem eru í þannig stöðu að geti slegið frá sér, munu ná fram launahækkunum en stóru hóparnir, og þá sérstaklega þeir láglaunuðustu, munu fara langverst út úr þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×