Innlent

Eldaði fingurinn með grænmeti og borðaði hann

Hafsteinn Hauksson skrifar
Þunglyndur tuttugu og átta ára maður á Nýja Sjálandi skar af sér fingur, eldaði hann með grænmeti og át hann í sjaldgæfu tilfelli af sjálfsáti.

Greint er frá tilfellinu í sálfræðitímaritinu Australasian Psychiatry, en þar kemur fram að maðurinn hafi hvorki verið undir áhrifum áfengis né fíkniefna þegar hann framdi verknaðinn.

Í greininni segir að maðurinn hafi gengið í gegnum erfitt þunglyndi eftir persónulegt áfall og glímt við alvarlegt svefnleysi og sjálfsvígshugsanir.

Til þess að losna við þessar hugsanir hafi hann svo gripið til þess ráðs að binda skóreim þétt um litla fingurinn á sér og saga hann svo af sér með rafmagnssög. Því næst eldaði maðurinn fingurinn á pönnu með grænmeti og át af honum kjötið. Maðurinn hafði í hyggju að skera af sér tvo fingur í viðbót og borða þá, en hlaut viðeigandi aðstoð áður en til þess kom.

Í frétt AFP af málinu kemur fram að sjálfsát sé afar sjaldgæft, og aðeins sé vitað um átta sjálfsátstilvik í heiminum.

Í greininni kemur fram að maðurinn hafi hótað að borða sjálfan sig áður í viðtölum við heilbrigðisstarfsfólk, en þar sem maðurinn þótti hvorki ofbeldisfullur né sýndi nein merki sturlunar, hafi það ekki verið tekið alvarlega. Því megi vera að hann hafi fyrst fengið þá umönnun sem hann vildi eftir að hann hafi látið verða af sjálfsátinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×