Innlent

Yfirmaður þýsku flotadeildarinnar leiður yfir ákvörðun Jóns Gnarr

Niko Raap.
Niko Raap.
Yfirmaður stærsta herskips þýska flotans segist vera leiður yfir því að Jón Gnarr hafi ekki viljað taka á móti þeim. Skipið kom með þyrlu sem aðstoða mun Landhelgisgæsluna næstu daga.

Skipin tvö komu til landsins í gær. Annað þeirra er freigáta en hitt er stærsta skip þýska flotans en það er nýtt sem stór birgðastöð fyrir önnur skip. Þá er skipið jafnframt fljótandi sjúkrahús en um borð má m.a. finna tannlæknaaðstöðu, skurðstofur og röntgendeild. Skipið er nýkomið frá Líbíu en þaðan sigldi það með flóttamenn til annarra landa.

Þá gegndi spítalinn um borð mikilvægu hlutverki eftir hamfarirnar í Indónesíu árið 2004. „Við tókum á móti fjölda manns til umönnunar. Við erum með fjölda sérfræðinga sem björguðu mannslífum og gerðu að sárum fólks,“ segir Sven Schwarze, yfirlæknir herskipsins.

Skipin komu með þyrlu til landsins sem mun aðstoða Landhelgisgæsluna næstu daga. Önnur þyrla Gæslunnar er nú í skoðun en á meðan er einungis ein þyrla á Íslandi. Þýska þyrlan gerir því Gæslunni kleift að sinna öllum útköllum sínum.

Jón Gnarr, borgarstjóri, neitaði að taka á móti flotaforingjunum, en hann segist ekki vilja tengjast neinu hernaðarbrölti. Reykjavík eigi að vera borg friðarins.

„Stundum lendir sjóherinn í vandræðum vegna slíkra einstaklinga. Mér finnst þetta dapurlegt því ferð okkar hingað er í vinsamlegum tilgangi sem er að veita Íslendingum tækifæri til að sjá skip úr þýska flotanum. Við komum hingað með vinarhug og því finnst mér þetta leitt,“ segir Niko Raap, yfirlautinant.

Öllum er hins vegar boðið um borð á morgun til að skoða skipið. „Íslendingum er boðið að koma um borð í skip okkar. Það er okkur sönn ánægja að sýna skip okkar á morgun frá klukkan eitt eftir hádegi til klukkan 16 síðdegis,“ segir Niko.




Tengdar fréttir

Jón Gnarr vill ekki tengjast hernaðarbrölti

„Ég er friðarsinni og á móti hernaði í hvaða mynd sem er,“ segir Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, en hann hyggst ekki taka á móti yfirmönnum af herskipum þýska flotans sem liggja nú við Skarfabakka í Sundahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×