Innlent

Samið til tveggja mánaða

Kjaraviðræðum mun að öllum líkindum ljúka í kvöld. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hugmyndir um þriggja ára samning út af borðinu. Samningurinn sem nú er rætt um í Karphúsinu mun gilda í tvo mánuði fyrst um sinn með möguleika á framlenginu.

„Þetta er allavega samningur til 15. júní og svo skulum sjá til hvernig þetta fer ef við náum þessum skammtímasamningi. Öll vinnan sem við vorum búin að leggja í fyrir þriggja ára samning er út af borðinu," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Vilhjálmur segir að gert sé ráð fyrir 50 þúsund króna eingreiðslu í samningunum. „Já, hún mundi koma en svo er það spurning með framhaldið. Við viljum að hér verði vinnufriður að sjálfsögðu."

Vilhjálmur segir að sjávarútvegsmálin hafi einna helst komið í veg fyrir að samið yrði til þriggja ára. „Við komumst nákvæmlega ekkert úr sporunum þar og síðan var ýmsum málið ólokið. Fyrst og fremst því sem snéri að orkumálunum og samgönguframkvæmdum. Síðan hafði Alþýðusambandið ekki lokið umfjöllun sinni um lýðræðismál gagnvart ríkisstjórninni."

Vilhjálmur gerir ráð fyrir því að viðræðunum ljúki í kvöld. „Ég reikna með að við getum klárað þetta í kvöld. Við allavega reynum það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×