Innlent

Lentu í bílslysi rétt fyrir handtöku

Mynd/Stefán
Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í gær vegna sölu og dreifingar á fíkniefnum. Lögregla hafði fylgst með mönnunum, sem báðir eru góðkunningjar lögreglu, í nokkurn tíma en ekki vildi betur til en svo að þeir lentu í umferðaróhappi þegar lögregla var um það bil að fara að handtaka þá, að því er fram kemur á vef lögreglunnar.

Við handtöku kom í ljós að ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna og mun það brot bætast við önnur brot mannsins. Í framhaldinu voru gerðar tvær húsleitir þar sem lögregla lagði hald á um 200 gr. af maríjúana, 100 gr. af hassi auk neysluskammts af kókaíni. Að auki lagði lögregla hald á rúmlega 700 þúsund krónur í peningum en lögregla telur að þessir fjármunir séu afrakstur fíkniefnasölu. Svo virðist sem kaupandi efnanna, sem býr á landsbyggðinni, hafi gert sér sérstaka ferð til höfuðborgarinnar til að kaupa efnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×