Innlent

Fordæma vinnubrögð í skólamálum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ Anton Brink.
Mynd/ Anton Brink.
Stjórn Félags leikskólakennara fordæmir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við greiningu tækifæra til samrekstrar eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í Reykjavík. Stjórnin segir að þessi vinnubrögð hafi valdið gríðarlegu álagi og óvissu hjá nemendum, foreldrum, skólastjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki leikskólanna í borginni sem ekki sjái fyrir endann á.

„Þá harmar stjórn félagsins að meirihluti Menntaráðs skuli ekki taka mark á varnaðarorðum Menntamálaráðherra og umsögnum fagfólks, m.a. frá Kennarasambandi Íslands og Menntavísindasiði Háskóla Íslands. Í umsögn Menntaráðs kemur til að mynda fram mikil vanþekking á faglegu hlutverki leikskólastjóra,“ segir í ályktun sem stjórn Félags leikskólakennara sendi frá sér.

Í ályktuninni ítrekar Félag leikskólakennara þá skoðun sína að draga beri framkomnar tillögur til baka. Enn hafi ekki verið sýnt fram á faglegan ávinning með sameiningunum auk þess sem fjárhagslegur ávinningur sé óverulegur. Þá kallar félagið eftir skýrri stefnu og heildarsýn í skólamálum Reykjavíkurborgar áður en ráðist er í jafn umfangsmiklar breytingar og um ræðir, sem unnin yrði í raunverulegu samráði við fagfólk og aðra sem málið varðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×