Innlent

Rafræn inneignarkort til bágstaddra - engir matarpokar

Hjálparstarf kirkjunnar ætlar að gera róttækar breytingar á mataraðstoð sinni hérlendis um næstu mánaðarmót, meðal annars með því að úthluta rafrænum inneignarkortum en ekki matarpokum eins og tíðkast hefur.

Forritun inneignarkortanna stuðlar að því inneigninni sé varið til nauðsynja en kortin verður hægt að nota í öllum matarverslunum á landinu. Þetta fyrirkomulag verður til reynslu í sjö mánuði og að því liðnu verður árangur þess metin.

Forsvarsmenn Hjálpaststarfs kirkjunnar segja þetta gert til að svara gagnrýni á það fyrirkomulag sem verið hefur á matarúthlutunum hér á landi.

Það sé niðurlægjandi að standa í biðröðum eftir mat og með inneignarkortum getur fólk valið sjálft þær nauðsynjar sem þarf á heimilið.

Kortaleiðin er hins vegar dýrari í framkvæmd en sú leið að reka matarbúr og úthluta úr því, en hjálparstarfið mun leita stuðnings verslana og einstaklinga til að fjármagna aðstoðina eins og hún verður. Verslanir verða beðnar um afslætti og einstaklingar fjárframlög.

Arion banki, viðskiptabanki Hjálparstarfsins, styður kortaleiðina. Bankinn mun kosta útgáfu inneignarkortanna og veita verkefninu fjárhagslegan stuðning. Að auki mun Arion banki kosta aðstoð fjármálaráðgjafa fyrir skjólstæðinga Hjálparstarfsins.

Nánar má kynna sér málið hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×