Innlent

Eigandi Bæjarins Bestu: Ríkisstjórnin gæti ekki skilað hagnaði

Eigandi Bæjarins Bestu tekur undir orð formanns Framsóknarflokksins um að ríkisstjórnin geti ekki skilað rekstri pylsusölunnar í plús. Hún segir að miðað við þá skatta sem lagðir séu á atvinnurekendur, lítist henni ekki á blikuna.

Í umræðunum á Alþingi í gær féllu mörg þung orð. Ríkisstjórnin var talin gjörsamlega vonlaus og fortíð Sjálfstæðisflokksins var mörgum ofarlega í huga.

Ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, vöktu mikla athygli. „Þessi ríkisstjórn gæti ekki rekið Bæjarins Bestu pylsur í plús - hvað þá íslenska ríkið.“

Guðrún Björk Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins Bestu, telur að ríkisstjórnin gæti ekki rekið Bæjarins pylsur í plús.

„Ekki eins og staðan er núna miðað við hvað þeir vilja leggja af sköttum á okkur, þá líst mér ekki á það," segir Guðrún Björk.

Þannig það væri erfitt að skila þessu með hagnaði? „Ég hugsa það, ég finn náttúrulega fyrir því eins og aðrir atvinnurekendur að álögur hafa aukist mjög mikið á okkur og það bitnar á rekstrinum."

Fjármálaráðherra var þó ekki jafn svartsýnn og formaður Framsóknarflokksins í umræðunum á Alþingi í gær. „Frú forseti, ég lýsi því yfir að stjórnarandstaðan er ekki gjörsamlega vonlaus. Ég held að háttvirtur þingmaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, gæti vel rekið pylsusjoppu og jafnvel haft af henni hagnað,“ sagði Steingrímur á Alþingi í gær.

Guðrún segir bæði Sigmund Davíð og Steingrím koma reglulega og fá sér pylsu á þessum vinsælasta skyndibitastað bæjarins. Og það eru fleiri þingmenn sem stelast í eina með öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×