Innlent

ESB umsókn dauð innan ríkisstjórnarinnar eða stjórnin sjálf

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur
Stóru tíðindin eru þau að ríkisstjórnin missti mann frá borði og annaðhvort er ESB-umsóknin dauð innan ríkisstjórnarinnar, eða ríkisstjórnin sjálf. Þetta er mat stjórnmálafræðings á pólitíkinni eftir atkvæðagreiðsluna á Alþingi í gær.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir stóru tíðindi gærkvöldsins augljóslega vera þau að Ásmundur Einar Daðason hafi sagt skilið við Vinstri græna og þar með sé ríkisstjórnin með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi.

„En það sem ég les í þetta er að bæði Atli og Ásmundur nefndu ESB umsóknina sem aðalástæðu þess að þeir gætu ekki stutt núverandi ríkisstjórn. Við vitum að það eru menn í þingliði Vinstri grænna sem styðja hana ekki heldur og þar á ég við Jón Bjarnason og Ögmund held ég. Þá myndi ég draga þá ályktun að eftir þessa atkvæðagreiðslu er annaðhvort ESB umsóknin dauð innan ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnin sjálf," segir Stefanía.

Stefanía segir afstöðu Guðmundar Steingrímssonar sem greiddi ekki atkvæði einnig hafa komið nokkuð á óvart.

„Manni fannst á tímabili að hann gleymdi því að hann væri í Framsóknarflokknum en ekki Samfylkingunni. Það var þegar hann gagnrýndi valdatíð Sjálfstæðisflokksins en gleymdi því að Framsóknarflokkurinn var með Sjálfstæðisflokknum í 12 ár af þeim 16 sem hann minntist á."

Stefanía segir einsýnt að kosningar fari fram í landinu innan skamms því erfitt verði fyrir ríkisstjórnina að styrkja sig með stuðningi annarra flokka.

Ljóst sé að ESB málið hafi splundrað Vinstri grænum og þar sé bullandi ágreiningur. Lilja, Atli og Ásmundur hafi hinsvegar ekki sagt sig úr Vinstri grænum.

„Það bendir til þess að þau ætli að taka slaginn við Steingrím J. innan Vinstri grænna. Verði Steingrímur ekki áfram ráðherra er ljóst að það verður gerð atlaga að honum á formannsstólnum og mér sýnist þau vera að undirbúa sig í þá baráttu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×