Innlent

Lilja útilokar ekki stofnun þingflokks með Atla og Ásmundi

Lilja Mósesdóttir útilokar ekki að stofna nýjan þingflokk með þeim Atla Gíslasyni og Ásmundi Einari Daðasyni. Brotthvarf Ásmundar úr Vinstri grænum kom flatt upp á Atla en Lilja segist skilja afstöðu hans mjög vel. Þingflokksformannsmálið hafi verið kornið sem fyllti mælinn.

Brotthvarf Ásmundar Einars úr þingflokki Vinstri grænna kom nokkuð á óvart en hann greiddi atkvæði með vantrauststillögunni á ríkisstjórnina á Alþingi í gær. Atli Gíslason sem sagði skilið við þingflokkinn fyrir skömmu segir útspilið hafa komið flatt upp á sig, enda hafi hann ekkert vitað fyrr en Ásmundur steig í pontu.

Hann segist ekkert hafa heyrt í þeim Ásmundi og Lilju Mósesdóttur en reiknar með því að þau muni tala saman á næstu dögum. Lilja sagði einnig skilið við Vinstri græna á sama tíma og Atli og útilokar ekki að þau þrjú muni stofna nýjan þingflokk. Hún segir þau hafa rætt óformlega saman og ætli að taka því rólega fram yfir páska.

„Það er mjög erfitt að starfa sem óháður þingmaður hvað varðar upplýsingaflæðið. Við erum oft síðust til þess að frétta af breytingum og við getum ekki skipt á milli okkar ræðutíma. Þannig að þetta er fyrst og fremst spurning um að hafa meiri áhrif og vera meira með á nótunum," segir Lilja.

Lilja segir útspil Ásmundar að vissu leyti hafa komið sér á óvart þar sem hann hafi gert sér vonir um að vinnulagið og stefnan innan Vinstri grænna myndi breytast. Þetta hafi verið honum þungbært líkt og þegar þau Atli ákváðu að yfirgefa þingflokkinn.

„En ég skil vel ástæðuna. Og að þessi kosning um þingflokksformanninn hafi fyllt mælinn."

Lilja segir það einnig hafa komið sér á óvart hversu lítil stuðnings ríkisstjórnin naut í sjálfu sér og á þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefði mátt heyra að tíðinda væri að vænta þaðan. Nefnir hún þar sérstaklega Guðmund Steingrímsson þingmann Framsóknarflokksins sem greiddi ekki atkvæði í gær.

Hún segir einnig ljóst að eftir umræður gærkvöldsins verði erfitt fyrir Ríkisstjórnina að styrkja sig með því að leita til annarra flokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×