Innlent

Aðgerðarleysi bankanna verði ekki liðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason segir að bönkunum muni ekki líðast það að hafa skuldamál fyrirtækja óleyst til langs tíma. Mynd/ Vilhelm.
Árni Páll Árnason segir að bönkunum muni ekki líðast það að hafa skuldamál fyrirtækja óleyst til langs tíma. Mynd/ Vilhelm.
Reglum verður breytt þannig að það hafi í för með sér mikinn kostnað fyrir fjármálafyrirtæki að hafa lán í vanskilum. Þetta verður gert til að þrýsta á fjármálafyrirtæki að vinna úr skuldamálum fyrirtækja.

Árni Páll Árnason sagði í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að það þyrfti að stilla saman strengi og þrýsta á bankana til að vinna hratt úr skuldamálum fyrirtækja. Gríðarlegt tjón stafi af því fyrir samfélagið þegar allir bankar bíði með úrlausn skuldamála fyrirtækja. „Og vekur upp verulega hættu á að við læsumst í vítarhring efnahagslegrar stöðnunar," sagði Árni Páll. Slíkt yrði ekki liðið.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á þessu máli á Alþingi. Hún kallaði eftir aðgerðum. „Að það verði ekki bara íhugað, heldur að það verði, eins og fljótt og auðið er, settar þær reglur sem fyrirtækin þurfa að fylgja þannig að þeim svíði undan fari þeir ekki að boðvaldi opinberra yfirvalda," sagði Sigríður Ingibjörg.

„Við höfum kallað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það fari vandlega í saumana á þessum lánum sem eru í vanskilum og það verði dýrara fyrir bankana að hafa þessi lán í vanskilum. Þannig að það kosti þá mikið að gera ekki neitt," sagði Árni Páll. Hann sagði að Samkeppniseftirlitið væri líka að herða mjög að bönkunum, takmarka þann tíma sem þeir geti haldið yfirteknum fyrirtækjum í sinni eigu. „Og það þarf líka að stilla saman strengi milli Samkeppniseftirltisins og Fjármálaeftirlitsins til að tryggja að bankarnir skili fyrirtækjunum ekki of skuldsettum út í atvinnulífið aftur. Því ef þau eru áfram of skuldsett geta þau ekki ráðið til sín nýtt fólk og þau geta ekki ráðist í ný verkefni," sagði Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×