Innlent

Hvað gera framsóknarmenn?

Formaður framsóknarflokksins lét í það skína á sunnudag að hann styddi ríkisstjórnina þrátt fyrir niðurstöðu Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hinsvegar var haft eftir honum í gær að framsóknarflokkurinn ætli að styðja vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins á núverandi ríkisstjórn. Þingflokkur Framsóknarflokksins hittist í dag og fer yfir málið.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram vantrauststillögu á núverandi ríkisstjórn í þinginu í gær. Forsætisráðherra þakkaði Bjarna fyrir framtakið og vildi að hún yrði afgreidd sem allra fyrst. Nú er ljóst að atkvæði verða greidd um hana í kvöld.

Margir velta því nú fyrir sér hverjir muni styðja tillöguna. Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins sagði í samtali við fréttastofu um miðjan dagi í gær alls óvíst hvort flokkurinn styddi tillöguna, þar sem hún væri byggð á veikum grunni og aðeins lögð fram af einum flokki. Sér fyndist í raun alls ótímabært að leggja hana fram á þessu stigi málsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sem staddur er erlendis lét svo hafa eftir sér seinni partinn í gær að Framsóknarflokkurinn ætli að styðja tillögu Bjarna.

Hann hefur reyndar margoft sagt að boða þyrfti til kosninga en í samtali við fréttastofu á sunnudagsmorgun, þegar niðurstaða í Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni lá fyrir, hafði hann þetta að segja: „Mér finnst eðlilegt að sú ríkisstjórn sem situr taki við þessum niðurstöðum og vinni úr þeim í samræmi við vilja almennings og geri sem best úr þessu með því að útskýra út á hvað málið raunverulega gengur. Það er eiginlega nauðsynlegt að það gerist. En burtséð frá því tel ég nauðsynlegt að halda kosningar og það var orðið nauðsynlegt áður en þessi niðurstaða kom.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×