Innlent

Vantrauststillagan umdeild á meðal stjórnarandstöðuliða

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.
Meirihluti stjórnarþingmanna telja öruggt að vantrauststillaga Sjálfstæðismanna verði felld við atkvæðagreiðslu í kvöld. Óánægja er meðal stjórnarandstöðuþingmanna með framgöngu Bjarna Benediktssonar í málinu.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina á Alþingi í gær. Tillagan verður tekin til umræðu klukkan fjögur í dag en talið er að umræður muni standa í allt að fimm klukkustundir. Að því loknu fer fram atkvæðagreiðsla.

Þeir þingmenn sem fréttastofa ræddi við í morgun telja líklegt að tillagan verði felld. Vafaatkvæði verði hjá þingmönnum Hreyfingarinnar, sem ekki hafa tekið afstöðu til tillögunnar, sem og hjá Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur sem nýverið sögðu sig úr þingflokki Vinstri Grænna. Þá efast heimildarmenn fréttastofu um stuðning Sivjar Friðleifsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar þingmanna Framsóknar við tillöguna. Formaður framsóknarflokksins hefur sagt að Þingflokkur Framsóknar muni funda um málið í dag.

Þá gagnrýna nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, meðal annars Hreyfingarinnar og framsóknar, vinnubrögð Bjarna Benediktssonar við gerð tillögunnar. Skort hafi samráð við aðra þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þingmenn Hreyfingarinnar telja að ekki eigi að tilgreina dagsetningu þingrofs því það geti torveldað störf stjórnlagaráðs.

Bjarni ræddi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Framsóknarflokksins, en honum hafi ekki þótt þetta vera rétti tíminn til að leggja hana fram. Bjarni hafi engu að síður lagt tillögunar fram.

Bjarni segist hafa lagt tillöguna fram með loforði um stuðning stjórnarandstöðunnar. Hann ræddi þó ekki við Hreyfinguna.

Vantrauststillögur hafa verið lagðar fram fjórtán sinnum á Alþingi, Engin þeirra hefur verið samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×