Innlent

Vorrallið sýnir sterka stöðu þorskstofnsins

Niðurstöður úr vorralli Hafrannsóknarstofnunnar sýna að staða þorskstofnsins er sterk. Stofnvísitala þorsks hækkaði fjórða árið í röð, var nú svipuð og árin 1998 og 2004.

Í tilkynningu um málið segir að hækkun vísitölunnar undanfarin ár má einkum rekja til þess að æ meira hefur fengist af stórum þorski (stærri en 70 sm). Þetta kemur vel fram í lengdardreifingu þorsksins sem sýnir jafnframt að minna er nú af millifiski á bilinu 35-60 sm en að meðaltali á tímabilinu 1985-2010.

Fyrsta mat á 2010 árgangi þorsks bendir til að hann sé slakur. Árgangarnir frá 2008 og 2009 mældust hins vegar meðalstórir ef miðað er við mælingar í vorralli frá 1985.

Gott ástand þorsksins er í samræmi við það að meira var af loðnu í þorskmögum en undanfarin ár og var loðna langmikilvægasta bráð þorsksins eins og títt er á þessum árstíma. Loðna fannst í þorski allt í kringum landið en mest var í þorskmögum í Breiðafirði, á Vestfjarðamiðum og grunnt út af Norðurlandi

Aðra sögu er að segja af ýsunni. Stofnvísitala ýsu hefur farið lækkandi undanfarin ár og er nú einungis rúmlega fjórðungur af meðaltali áranna 2003-2007 þegar hún var í hámarki. Lengdardreifing ýsunnar sýnir að allir lengdarflokkar eru undir meðallagi í fjölda. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að allir ýsuárgangar eftir 2007 séu lélegir, en mest fékkst af 35-50 sm ýsu sem flestar eru fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×