Innlent

Vara við aukinni útfjólublárri geislun á Íslandi

Umhverfisstofnun beinir því til fólks sem stundar útivist í sól, svo sem skíði, að nota sólvörn og sólgleraugu
Umhverfisstofnun beinir því til fólks sem stundar útivist í sól, svo sem skíði, að nota sólvörn og sólgleraugu Mynd: Vilhelm Gunnarsson
Undanfarnar vikur hefur mælst óvenju mikil eyðing ósonlagsins yfir norðurhveli jarðar sem rekja má til óvenjulegra kaldra háloftavinda sem hafa komið í veg fyrir að lofthjúpurinn yfir norðurheimskautinu blandaðist við loft frá suðlægari breiddargráðum.

Upplýsingar frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni benda til að um 40% þynningu á ósonlaginu sé að ræða og hefur hún aldrei áður verið svo mikil á norðurhveli jarðar. Búast má við að áhrifa þessara eyðingar ósonlagsins muni gæta hér á landi í vor og í sumar með aukinni útfjólublárri geislun á heiðskírum dögum.   

Umhverfisstofnun hefur sent frá sér tilkynnigu vegna þessa þar sem því esr sérstaklega beint til útivistarfólks að nota sólvörn og sólgleraugu.

Ósonlagið er það svæði í lofthjúp jarðar þar sem þéttleiki ósons er mestur, í 15-35 km hæð yfir jörðu, og verndar lífríki jarðar gegn hættulegum útfjólubláum geislum sólar. Þessi hættulega geislun getur skaðað lífið í sjónum, valdið húðkrabbameini, augnsjúkdómum og bælt ónæmiskerfi líkamans. Losun ósoneyðandi efna var bönnuð með alþjóðlegum samningi, Montrealbókuninni frá 1987, sem verður 25 ára á næsta ári. Hér á landi hefur notkun ósoneyðandi efna minnkað um 98% frá því hún var mest árið 1987.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×