Innlent

Vinna jafnréttisáætlun fyrir Ísafjarðarbæ

Launadeild Ísafjarðarbæjar hefur verið falið að afla upplýsinga um fjölda karla og kvenna sem starfa hjá bæjarfélaginu, launamun kynjanna og skiptingu veikindadaga milli kynjanna.

Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar samþykkti þetta á síðasta fundi sínum. Ragnhildur Sigurðardóttir bæjarfulltrúi lagði þar fram tillögur um hvernig staðið verði að fyrsta áfanga við gerð jafnréttisáætlunar fyrir Ísafjarðarbæ.

Þá hefur skóla- og fjölskylduskrifstofu bæjarins hefur verið falið að senda spurningalista til stofnana og deilda innan Ísafjarðarbæjar og safna svörum saman um vinnuumhverfi, vinnutíma, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, hæfniþróun og menntun.

Í fundargerð félagsmálanefndar segir um tillögur Ragnhildar: „Til að hægt sé að greina hvort starfsmönnum Ísafjarðarbæjar sé mismunað á grundvelli kyns, þarf ákveðin vitneskja, um aðstæður og störf starfsmanna að vera til staðar. Því er lagt til við félagsmálanefnd að fyrsti áfangi við gerð jafnréttisáætlunar verði kortlagning og þekkingaröflun, þar sem upplýsingar verða greindar eftir kyni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×