Þjóðhátíð var fyrst haldin árið 1874 svo haldið upp á 150 ára afmæli í ár. Flestallar stærstu tónlistarstjörnur landsins stigu á svið í veðri sem fældi marga frá, átján metrar á sekúndu og rigning inn á milli. Dagskránni lauk ávallt klukkan fimm að morgni til og var þá fjöldi manna enn að dansa og skemmta sér. Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, segir alla helgina hafa gengið frábærlega þrátt fyrir áskoranirnar sem veðrið bauð upp á.





„Þá held ég að við höfum bara náð að tækla þetta mjög vel og ég held það séu allir gestir, eða langlanglangflestir, mjög sáttir,“ segir Jónas. „Ég var að funda með lögreglunni og þeir sögðu að þetta væri með rólegri þjóðhátíðum sem þeir muna eftir.“


Vegna roksins þurftu margir að hverfa af tjaldsvæðum Heimaeyjar og leita inn í Herjólfshöllina sem var opnuð fyrir þeim sem áttu tjöld sem lentu illa í veðrinu.



„Ég fór þarna nokkrum sinnum og var að spjalla við krakkana. Þau sögðust hafa það gott og það færi vel um þau. Þannig ég held að það hafi bara gengið vel,“ segir Jónas.
Watch on TikTok
Það rigndi nánast allt sunnudagskvöldið og -nóttina. Brekkan varð að rennibraut og nokkrir þurftu að leita á slysadeild eftir að hafa runnið þar niður. Núna er varla grasstrá að sjá um miðja brekku en Jónas telur að hún muni jafna sig fyrir næsta ár.
„Hún gerir það alltaf, ég hef engar áhyggjur af því. Ég held að núna eftir nokkrar vikur verði hún orðin alveg þokkaleg,“ segir Jónas.

Fjöldi fólks reif upp símann þegar gestir voru að renna niður brekkuna og keppast við að birta myndbönd á samfélagsmiðlum. Einhverjir náðu að stöðva áður en þeir lentu á einhverjum en aðrir enduðu aftan á grunlausum gestum og þeir sem voru standandi enduðu margir hverjir kylliflatir eftir tæklingu frá þeim sem flugu niður brekkuna.
Watch on TikTok
Watch on TikTok
Þegar haldið var heim á ný eftir Þjóðhátíð voru einhverjir sem voru ekki búnir með bjórinn sinn. Sumir ákváðu að klára hann í Herjólfi á leiðinni heim á mánudeginum, líkt og þessi í myndbandinu hér fyrir neðan sem fór heim með ferjunni klukkan þrjú. Þá dugði ekki að drekka hann í rólegheitunum, heldur þurfti trektina til að skola honum niður sem fyrst.