Innlent

Ekki sitja föst í vantrausti og tortryggni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.
Við megum ekki við því öllu lengur að sitja föst í vantrausti og tortryggni, sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, í páskapredikun sinni í Dómkirkjunni í morgun. Hann gerði málefni íslensks samfélags að umræðuefni sínu.

„Ári eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis setja neikvæðnin, sakbendingarnar og dómharkan mark sitt á þjóðarsálina. Vissulega ekki af ástæðulausu. En það er auðvelt að missa móðinn, auðvelt að láta neikvæðnina taka yfir í sál sinni, auðvelt að leita sökudólga og benda á aðra, firra sig ábyrgð, flýja í skjól kæruleysis og kaldhæðni," sagði Karl.

Karl sagði að Íslendingar þörfnuðust trúar á lífið, trúar á framtíð þess, trúar á möguleika sína til að leysa aðsteðjandi vanda, trúar á mátt umhyggju og kærleika til að reisa og viðhalda samfélagi sem stuðlar að mannlegri reisn. „Og við þurfum að læra af mistökum og brotum okkar. Við erum öll brothættar, breyskar, varnalausar manneskjur," sagði Karl

Karl sagði að það væru vondir tímar sem Íslendingar lifðu nú þar sem allt virtist öfugstreymi. „En vildum við lifa á öðrum tímum en einmitt nú? Hafa Íslendingar nokkurn tíma haft eins góð tækifæri til að vinna sig upp úr vanda og nú? Bara ef við bærum gæfu til að taka höndum saman í kærleika, trú og von," sagði Karl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×