Innlent

Vel heppnað bingó: Löggan keyrði bara framhjá

Mynd: Egill
Veglegir vinningar, páskaegg og bækur, voru í árlegu páskabingói Vantrúar sem haldið var á Austurvelli upp úr hádeginu. Auk þess gat fólk fengið kaffi til að ylja sér og kleinur með.

Bingóið hefur verið haldið síðustu ár á föstudaginn langa í því skyni að mótmæla því sem meðlimir Vantrúar kalla úrelta helgidagalöggjöf, en allt skemmtanahald, þar á meðal bingó, er bannað með lögum á þessum degi.

Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, segir þá félaga alltaf hafa fengið að halda bingóið án afskipta lögreglu. "Í fyrra sáum við lögreglubíl aka framhjá," segir hann, en það var allt og sumt.

Sama var uppi á teningnum í ár, lögreglan ók framhjá en aðhafðist ekkert.

Lögreglan sá engu að síður ástæðu til að senda frá sér tilkynningu nú fyrir páskana þar sem minnt var á bingóbannið, og skemmtanabann yfir höfuð á föstudaginn langa.

Á Austurvelli í dag var spilað á fimmtíu bingóspjöld og segir Reynir að svo margir hafi mætt í ár að ekki hafi allir fengið spjöld. „Því miður átti við ekki fleiri spjöld," segir hann.

Nokkrar umferðir voru spilaðar og fengu öll börn sem komu lítið páskaegg með sér heim.

„Þetta var bara mjög vel heppnað," segir Reynir.


Tengdar fréttir

Páskabingó Vantrúar - mótmæla helgidagalöggjöfinni

Undanfarin ár hefur skapast hefð fyrir páskabingói á Austurvelli á föstudaginn langa og í ár verður engin undantekning á því. Það eru meðlimir Vantrúar sem standa fyrir bingóinu sem hefst klukkan hálf eitt. "Við munum safnast saman klukkan 12:30 og sýna stjórnvöldum með þessum fallegu mótmælaaðgerðum hvað okkur finnst um löngu úrelta helgidagalöggjöfina. Veglegir vinningar, bækur og páskaegg. Svo bjóðum við upp á kakó og kökur. Allt ókeypis! Öll börn fá glaðning,“ segir á heimasíðu Vantrúar. Með því að smella á tengilinn hér að ofan má sjá myndband frá páskabingóinu í fyrra. Samkvæmt helgidagalöggjöfinni er óheimilt að halda eða taka þátt í bingói á föstudaginn langa. Lögreglan sendi út tilkynningu nú fyrir páskana þar sem hún minnti á þetta bann. Vantrúarmenn hafa þó að mestu fengið að halda sitt bingó óáreittir í gegn um árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×