Innlent

Siv á víða undir högg að sækja

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Siv Jensen varð líka að skotspæni skopmyndateiknara. Mynd/ afp.
Siv Jensen varð líka að skotspæni skopmyndateiknara. Mynd/ afp.
Það er víðar en á Íslandi sem stjórnmálamenn sem heita Siv hafa orðið að skotspæni skopmyndateiknara að undanförnu. Í norska blaðinu Verdens Gang birtust á dögunum myndir af Siv Jensen, formanni Framfaraflokksins þar í landi. Þar er hún sýnd uppi í rúmi með Mullah Krekar, sem er vafasamur íraskur kúrdi sem fékk hæli í Noregi. Framfaraflokkurinn er hins vegar þekktur fyrir að hafa varan á þegar málefni útlendinga eru annars vegar.

Guðni Ölversson, sem býr í Noregi, sagði frá teikningunni af Siv í Reykjavík síðdegis í gær. „Þessi mynd sýnir það hvað Siv Jensen meinar með því að fólk lagi sig að norskum lögum og norskum reglum og bara yfir höfuð samfélaginu," segir Guðni. Hann segir að Siv og Krekar hafi eldað grátt silfur saman um árabil.

Krekar er vafasamur náungi að sögn Guðna. „Hann er ágætiskunningi bin Laden," segir Guðni. Fáa menn vilji bandarísk yfirvöld frekar hafa hendur í hári. „Hann er hættulegur norsku samfélagi. Hann gerir ekkert til að aðlaga sig norsku samfélagi. Hann veður hér um með hótanir,“ segir Guðni. Krekar hafi hótað því að ef hann verði rekinn úr landi þá verði formaður hægriflokksins einfaldlega drepinn af því að hún hafi einu sinni látið þau orð falla að hann ætti hvergi heima annarsstaðar en í sínu eigin heimalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×