Innlent

Grindvíkingar passa hver annan - bærinn miðlar upplýsingum

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík.
„Íbúar hér eru mjög vakandi og hringja sig saman þegar eitthvað svona kemur upp," segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík.

Á heimasíðu bæjarins er að finna frétt þar sem er vakin athygli á heldur óvenjulegum heimsóknum í hús í Grindavík sem eru þess eðlis að ástæða sé til að hafa varan á, eins og það er orðað á heimasíðunni.

Maður af erlendum uppruna bankaði upp á í nokkrum húsum síðasta föstudags- og laugardagskvöld og bauðst til þess að mála þakið hjá viðkomandi. Á heimasíðunni segir að grunur leikur á að maðurinn hafi fyrst og fremst verið að kanna hvort viðkomandi hús hafi verið mannlaus.

Grindvíkingar eru hvattir til þess að láta lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir og læsa húsunum sínum, hvort sem fólk er heima eða heiman.

Róbert segir að fréttin á heimasíðunni sé hluti af ákveðnu ferli sem fari í gang þegar svona kemur upp. „Í nokkrum götum er nágrannavarsla og þegar eitthvað kemur upp þá hringja menn sig saman. Hluti af ferlinu er að hringja í okkur og við setjum það inn á heimasíðuna og á Facebook-síðu bæjarins. Þannig þetta er bara hluti af þessari nágrannavörslu," segir Róbert.

„Þetta er mjög fínn vettvangur til að koma svona á framfæri því bæjarbúar skoða þessar síður oft. Það er fljótt að spyrjast út í svona litlum samfélögum," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×