Innlent

Sex sér­sveitar­menn í Eyjum og lagt hald á tvo hnífa

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Sex sérsveitarmenn eru í Vestmannaeyjum yfir verslunarmannahelgina og munu aðstoða lögregluna.
Sex sérsveitarmenn eru í Vestmannaeyjum yfir verslunarmannahelgina og munu aðstoða lögregluna. Vísir/Vilhelm

Húkkaraballið fór fram í gærkvöldi í Vestmannaeyjum og gekk kvöldið prýðilega vel fyrir utan minniháttar slagsmál og óspektir að sögn Stefáns Jónssonar, yfirlögregluþjóns í Vestmannaeyjum.

Lagt var hald á tvo hnífa í nótt en Stefán segir að mennirnir sem áttu hnífanna höfðu ekki gert sig líklega til að beita þeim heldur fundust þeir við hefðbundna leit vegna gruns um vopnaburð. Hann segir að hnífarnir hafi ekki verið stórir en að mennirnir eigi yfir höfði sér sektir vegna brota gegn vopnalögum.

„Þetta fór bara vel fram. Það voru tveir sem gistu fangageymslu í nótt. Þeir eru lausir núna, þetta voru bara óspektir og slagsmál. Tvö minniháttar fíkniefnamál,“ sagði Stefán í samtali við Vísi. 

Hann segir að einn hnífurinn hafi fundist við líkamsleit og annar í bifreið. „Þetta finnst við skoðun og þetta eru bara hnífar sem eiga ekki að vera í umferð.“

Sérsveitin aðstoðar um helgina

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við Vísi í júlí að metfjöldi sérsveitarmanna myndu vera lögreglunni til halds og traust yfir verslunarmannahelgina. 

Stefán staðfestir að sérsveitin sé komin til Eyja og að þeir muni aðstoða lögregluna í kvöld við löggæslu. 

„Jú það er mjög vel mannað í kvöld. Þeir eru að verða sex sérsveitarmenn hérna samtals. Þeir eru að aðstoða okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×