Innlent

Alls engin yfirlýsing - Svör ráðherra oftúlkuð

Erla Hlynsdóttir skrifar
Flugmenn hjá Icelandair hafa oftúlkað orð ráðherra þegar hún svaraði spurningu fréttamanns Stöðvar 2
Flugmenn hjá Icelandair hafa oftúlkað orð ráðherra þegar hún svaraði spurningu fréttamanns Stöðvar 2 Mynd Valli
Iðnaðarráðherra sendi aldrei frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að til greina kæmi að lög yrðu sett á verkfall flugmanna. „Það mátti skilja það þannig af fréttum en það er nú ekki rétt, ég gerði það ekki," sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, Í bítinu á Bylgjunni í morgun.

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna talaði um það í fjölmiðlum um helgina að „yfirlýsing" ráðherra hefði snert flugmenn illa og að hún hefði komið á viðkvæmum tíma. Fréttir af þessu voru fluttar í ýmsum fjölmiðlum þar sem fjallað var um kjaradeilu flugmanna hjá Icelandair.

Hið rétta er hins vegar að fréttamaður Stöðvar 2 spurði ráðherra á föstudag hvort hægt væri að útiloka að lög yrðu sett á verkfallið og sagði ráðherra aldrei hægt að útiloka slíkt.

„Það er náttúrulega aldrei hægt að útiloka slíka möguleika þegar kjaradeilur eiga sér stað. Ég held að það geti ekki nokkur maður gert það," sagði Katrín Í bítinu en tók fram að mikið þyrfti að ganga á áður en gripið væri til slíkra aðgerða. „Það er nú ekki komið að því á þessari stundu og töluvert í land með það þannig að þessi orð mín voru nú eitthvað oftúlkuð," sagði hún.

Meðal annars sagði Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í viðtali við RÚV á sunnudag: „Það er skelfilega ófaglegt af iðnaðarráðherra að hóta lögbanni."

Í bítinu var Katrín spurð hvort túlkun á svari hennar hefði verið tekin of langt. „Já, það má segja það. En það kannski hefur hentað einhverjum. Það er bara eins og það er," sagði hún.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Katrínu Í bítinu í morgun með því að smella á tengilinn hér að ofan.

Með því að smella hér má horfa á viðtal Stöðvar 2 við ráðherra á föstudag þar sem hún segist aðspurð ekki útiloka að setja lög á verkfallið.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til sáttafundar með flugmönnum Icelandair og samningamönnum félagsins, klukkan hálf tvö í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×