Innlent

Spyr hvort ráðherra ætli að skikka flugmenn til að vinna í frítímanum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
kjartan jónsson.
kjartan jónsson.
Allt bendir til þess Icelandair muni aflýsa sex flugferðum til viðbótar á mánudag eftir að upp úr slitnaði í samningaviðræðum flugmanna og Icelandair hjá ríkissáttasemjara í dag. Flugmenn eru ósáttir við yfirlýsingar ráðherra.

Mikið ber í milli deiluaðila og hefur annar fundur ekki verið boðaður hjá ríkissáttasemjara. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra sagði í fréttum okkar í gærkvöld að hún útilokaði ekki lög á kjaradeilu flugmanna. Þungt hljóð var í Kjartani Jónssyni framkvæmdastjóra félags íslenskra atvinnuflugmanna.

„Það er bara allt stopp miðað við þá bjartsýni sem við höfðum í gær þá er hún horfin í augnablikinu, þetta virtist ganga ágætlega í gær þangað til að yfirlýsing ráðherra kom á mjög skemmtilegum tíma þegar menn sátu við samningaborð og það varð að mínu mati til þess að viðsemjendur okkar hölluðu sér aftur í sætinu og renndu sér frá borðinu og bíða eftir því að vera skornir úr snörunni," sagði Kjartan.

Hann segir að lög á yfirvinnubann sé engan veginn raunhæft.

„Ætlar hún að neyða okkur til að mæta í vinnuna á frídögum okkar, það er það eina sem við erum ekki að gera í augnablikinu, við neitum að vinna á frídögum, við mætum á varavaktir og mönnum öll flug sem við erum bókaðir á," sagði Kjartan.

Yfirvinnubann flugstjóra hófst í gær og er Icelandair þegar búið að aflýsa sex flugferðum á morgun. Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair sagði í samtali við fréttastofu í dag að sex flugferðum til viðbótar á aðfararnótt mánudagsins verði aflýst. Hann segir hins vegar ekki sjá fram á frekari breytingar á flugáætlun það sem eftir er mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×