Innlent

Sambýlismaðurinn var yfirheyrður vegna andláts Sigrúnar Mjallar

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Enn er ekki útséð með hvort einhver verður ákærður vegna andláts Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur, sem lést af banvænum morfínskammti í fyrra. Sambýlismaður hennar var, samkvæmt nýjum upplýsingum, yfirheyrður vegna láts stúlkunnar.

Rannsókn lögreglu á andláti þessarar sautján ára stúlku síðasta sumar, hefur verið gagnrýnd - meðal annars fyrir að ekkert bendi til í gögnum sem foreldrar hennar fengu, að kannað hafi verið hvernig hún komst yfir lyfseðilsskyld lyf né að tæplega þrítugur sambýlismaður hennar hafi verið yfirheyrður.

Sigrún Mjöll er talin hafa látist milli 8 og 9 að morgni en sambýlismaður hennar hringdi í Neyðarlínuna kl.11.27 - nokkrum klukkustundum síðar. Þegar lögregla kom á vettvang voru einu ummerki neyslu komin inn í skáp, sprautur og nálar, og hvergi lyf né eiturlyf sjáanleg.

Og það er ekki út í bláinn að þetta þyki athugunarvert - því nokkuð sambærilegt mál fór fyrir Hæstarétt árið 2005, þá var maður dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að koma ekki stúlku í lífshættu eftir of stóran eiturlyfjaskammt, til hjálpar, og hringja ekki í Neyðarlínu fyrr en stúlkan var látin.

Rannsóknarlögreglan vill enn sem fyrr ekkert tjá sig um málið - en fréttastofa fékk þær upplýsingar í dag samkvæmt heimildum, að sambýlismaður stúlkunnar hefði verið yfirheyrður - ellefu dögum eftir andlátið (14. júní).

Engin skýring hefur fengist á því af hverju sú skýrsla rataði ekki inn í gögnin sem foreldar Sigrúnar fengu. En eftir yfirheyrsluna virðist lögregla ekki hafa talið tilefni til að rannsaka þátt sambýlismannsins frekar. Lyktir málsins eru þó enn á huldu, nú er það í höndum ákæruvalds að meta hvort rannsókn hafi verið fullnægjandi eða hvort ástæða sé til að senda það áfram til ríkissaksóknara til ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×