Innlent

Síðasta flug stofnanda Ernis

Hörður Guðmundsson lét af störfum í dag.
Hörður Guðmundsson lét af störfum í dag.
Hörður Guðmundsson, flugstjóri og stofnandi flugfélagsins Ernis, lét af störfum í dag á sextíu og fimm ára afmæli sínu. Fjöldi fólks kom honum á óvart þegar hann lenti á Reykjavíkuflugvelli í dag eftir síðasta áætlunarflug sitt.

Hörður lærði að fljúga sautján ára en stofnaði flugfélagið Erni árið 1970. Það varð mikil samgöngubót fyrir vestfirðinga enda kom hann á fót póst- og sjúkraflugi á svæðinu.

En þrátt fyrir að hafa rekið flugfélag í öll þessi ár flýgur hann enn sjálfur áætlunarflug. Hann lét af störfum í dag á sextíu og fimm ára afmæli sínu en eins og sjá mátti þegar hann þaut yfir brautina í þessu síðasta áætlunarflugi sínu, flýgur hann en eins og unglamb.

Slökkviliðsbílar komu sér svo fyrir við brautina og mynduðu heiðursboga um kappan þegar hann ók flugvél sinni sem atvinnuflugstjóri að hlaði í síðasta sinn.

Vinir og samstarfsmenn Harðar komu honum á óvart en þeir höfðu slegið upp veislu í flugskýli Ernis, honum til heiðurs. Þegar hann steig út úr vélinni sagði hann flugið hafa gengið vel en hann var gáttaður á þessum móttökum.

Hörður hefur skráð átján þúsund flugtíma, en hann segist ekki vera hættur að fljúga. Þá ætlar hann áfram að fylgjast með fyrirtækinu enda sonur hans og tengdasonur flugstjórar hjá Erni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×