Innlent

Þrýstingur á vegaframkvæmdir frá verkefnalausum verktökum

Heimir Már Pétursson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mynd/ANTON
Innanríkisráðherra segir umræðu um auknar vegaframkvæmdir fara fram undir þrýstingi frá verkefna litlum verktökum. Ekki verði farið í flýtiframkvæmdir í vegagerð sem kalli á veggjöld en í ár er sex milljörðum varið til nýframkvæmda í vegagerð.

Í tengslum við gerð kjarasamnnga var rætt um að fara í flýtiaðgerðir í vegamálum sem fjármagnaðar yrðu með vegtollum og var meðal annars rætt um tvöföldun Suðurlandsvegar í því samhengi. Innanríkisráðherra segir þetta hafa verið skoðað en niðurstaðan orðið að fara ekki í slíkar framkvæmdir á fyrrgreindum forsendum. Í fjárlögum þessa árs eru sex milljarðar til nýframkvæmda í vegagerð og er nú þegar langt gengið á þá fjármuni.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að viðbótarfjármagn verði ekki sótt í ríkissjóð til vegaframkvæmda.

„Við erum hins vegar að leita leiða til að ráðast í framkvæmdir sem eru til þess fallnar að skapa sem allra flest störf. Þær ráðagerðir og hugmyndir sem voru settar fram að hálfu samtaka atvinnulífsins voru ekki þess eðlis. Þær voru ekkert sérstaklega atvinnuskapandi nema síður sé," segir Ögmundur.

Stórframkvæmdir eins og tvöföldun vega séu ekki mjög mannaflsfrekar framkvæmdir. Hins vegar sé breikkun einbreiðra brúa og önnur slík verkefni atvinnuskapandi.

„Við erum að ráðast í slíkar aðgerðir á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið. Þar settum við 350 milljónir til viðbótar við það sem áður hafði verið ákveðið. Þannig að við erum að leita leiða til að bæta öryggi á vegunum, til að bæta samgöngukerfið og skapa sem flestu fólki störf. Það erum við að gera," segir innanríkisráðherra.

Ögmundur segir andstöðuna við vegtolla mikla, en lífeyrissjóðirnir hafi eingöngu verið tilbúnir að lána til einkaframkvæmda í vegagerð, sem almenningur hafi átt að greiða fyrir með slíkum gjöldum.

Ögmundur svaraði því játandi, þegar hann var spurður hvort honum finndist umræðan ráðast af hagsmunum verktaka sem skorti verkefni. „Það er málið," sagði innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×