Innlent

Fékk grjótregn á þakið: Þetta hljómaði eins og hvellhetta

Myndir: Nikólína
Myndir: Nikólína
Rúður eru brotnar og þök dælduð í Bolungarvík eftir að grjóti ringdi þar yfir íbúðarhús um hádegisbilið. Ástæðan er sú að verktaki var að sprengja í fjallinu fyrir ofan þar sem unnið er að gerð snjóflóðagarðs.

Nikólína Beck Þorvaldsdóttir var heima hjá sér ásamt fjölskyldu þegar grjótinu tók að rigna yfir húsið. Þeim brá skiljanlega mjög en gerðu sér í fyrstu ekki grein fyrir hvað var að gerast. Nokkuð hefur verið um sprengingar að undanförnu og hélt hún í fyrstu að þarna hefði sprenging mistekist. „Þetta hljómaði eins og hvellhetta," segir hún.

Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki. „Margir voru úti að vinna í görðunum sínum og ég þakka bara fyrir að þetta lenti ekki á neinum," segir Nikólína.

Eftir því sem hún best veit eru engin hús óíbúðarhæf eftir grjóthrunið þó sum þeirra séu vissulega illa farin. Hjá henni urðu mestu skemmdirnar á þakinu þar sem gat kom í bárujárnið, jafnvel þó þar hafi ekki verið um stóra hnullunga að ræða. Þar hafi hraði grjótsins haft úrslitaáhrif þegar kom að skemmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×