Innlent

Ungmenni til fyrirmyndar

Frá Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum í dag.
Frá Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum í dag. Mynd/Valgarður Gíslason
„Veðrið hefur leikið við okkur en ég held að hitinn hafi farið yfir 20 gráður í dag," segir Helga Jónsdóttir, móðir tveggja ungmenna sem taka þátt í Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum, sem hófst í morgun í rjómablíðu, en þar eru saman komin um 8-10 tíu þúsund manns þessa helgi.

Þetta er í 14. skipti sem mótið er haldið en vinsældir þess hafa vaxið ár frá ári. Á mótið í Borgarnesi í fyrra voru keppendur um 1700 sem er metþátttaka. Á mótin síðustu ár hafa keppendur og gestir verið á milli 10-12 þúsund. Allir á aldrinum 11–18 ára geta tekið þátt í íþróttakeppni en keppt er í fjölmörgum greinum á borð bið frjálsum íþróttum, glímu, hestaíþróttum, knattspyrnu og skák. Keppnisgreinar fatlaðra eru sund og frjálsar íþróttir.

„Mótið fer virkilega vel af stað, að minnsta kosti það sem ég hef séð," segir Helga.

Samhliða íþróttakeppninni verður fjölbreytt skemmtidagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna á daginn. Þá verða kvöldvökur haldnar öll kvöld. Öll dagskrá er endurgjaldslaus fyrir mótsgesti.

Helga segir ánægjulegt að fylgjast með unga fólkinu og fjölskyldum þeirra. „Þetta er fjölskylduhátíð og þessi ungmenni eru svo sannarlega til fyrirmyndar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×