Innlent

Maður hætt kominn eftir ísbjarnarárás

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ástand mannsins er sagt stöðugt.
Ástand mannsins er sagt stöðugt. Vísir/Vilhelm

Hlúð er að manni á Landspítalanum sem slasaðist alvarlega í ísbjarnarárás á Traill-eyju á norðanverðri austurströnd Grænlands á föstudaginn síðasta.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Grænlandi staðfestir í samtali við fréttastofu að lögreglunni hafi borist útkallið á tólfta tímanum á föstudaginn. 

Maðurinn er þýskur og var á mannlausri eyjunni í óljósum erindagjörðum en eyjan er skammt frá einni nyrstu aðstöðu danska hersins í Meistaravík.

Samkvæmt grænlensku lögreglunni var maðurinn „mjög alvarlega særður.“ Hann var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur samdægurs. Lögreglunni á Grænlandi bárust þær upplýsingar á laugardaginn að ástand hans væri stöðugt.

Ísbirnir hafa verið að gera vart við sig á austurströnd Grænlands í auknum mæli upp á síðkastið. Tveir ísbirnir heimsóttu grænlenska þorpið Ittoqqortormiit við Scoresby-sund í síðustu viku en það er mjög sjaldan að ísbirnir láti sjá sig nálægt mannabyggðum að sumri til. Íbúar í þorpinu eru mjög áhyggjufullir yfir þessari þróun sem leiða má líkur að því að stafi af loftslagsbreytingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×