Innlent

Sundlaugaverðir lenda í útistöðum við foreldra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hafþór B. Guðmundsson segir að Íslendingar séu of værukærir þegar kemur að öryggismálum í sundlaugum.
Hafþór B. Guðmundsson segir að Íslendingar séu of værukærir þegar kemur að öryggismálum í sundlaugum.
Starfsmenn sundlauga lenda mjög oft í útistöðum við foreldra vegna kæruleysis. Foreldrarnir ætlast í sumum tilfellum til að starfsmennirnir taki að sér barnagæslu á meðan þeir sjálfir liggi í sólbaði. Þetta segir Hafþór B. Guðmundsson, lektor við HÍ að Laugarvatni. Hann á sæti í hópi á vegum Umhverfisstofnunar sem vinnur nú að endurskoðun reglugerðar um hollustuhætti á stundstöðum.

Vísir greindi frá því í morgun að Anton Bjarnason, sundkennari til fjörtíu ára, var stöðvaður þegar hann ætlaði með fjögur barnabörn sín, sjö og tíu ára, í sundlaugina að Laugarvatni í gær. Ástæðan er reglur um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Samkvæmt þeim má ekki fara með fleiri en tvö börn yngri en tíu ára í sund, nema að um sé að ræða foreldri eða forráðamann barnanna. Hins vegar getur leiðbeinandi á sundnámskeiði verið með 15 börn í sinnu umsjá. Anton segir að þarna sé ekkert samræmi í reglunum.

Hafþór segir það ekki rétt að barnabörn Antons hafi verið orðin tíu ára. Ef þau hefðu verið orðin það mættu þau fara ein í sund. Hann segir auk þess að reglugerðin sé mjög góð að flestu leyti. Íslendingar hafi verið of værukærir í öryggismálum á sundstöðum hingað til og því hafi þurft að breyta. Hann tekur hins vegar undir þær ábendingar sem Anton bendir á. Hann segir að reglugerðin fari til endurskoðunar í ágúst. Starfsmennirnir sem afgreiddu Anton hafi hins vegar brugðist hárrétt við miðað við það hvernig reglugerðin er núna.

„Ég á von á því að menn muni klykkja betur á því hvað er forráðamaður," nefnir Hafþór sem dæmi um breytingar sem þyrfti að gera á reglugerðinni. Hann segist sjálfur eiga þrjú barnabörn sem hann fái stundum til sín um helgar. „Er ég ekki forráðamaður barnanna, ef ég er með barnabörnin hjá mér yfir helgi?"


Tengdar fréttir

Sundkennara meinað að fara með barnabörnin í sund

Sundkennari til fjörtíu ára var stöðvaður þegar hann ætlaði með fjögur barnabörn sín í sundlaugina að Laugarvatni í gær. Ástæðan er nýjar reglur um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Samkvæmt reglunum er fullorðnum einstaklingi óheimilt að hafa fleiri en tvö börn með sér í sund, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×