Innlent

Hald lagt á minna magn af fíkniefnum

Hátíðarhöld hafa gengið vel um allt land en lögregla hefur lagt hald á minna magn af fíkniefnum en síðustu ár. Í Vestmannaeyjum hafa 29 fíkniefnamál komið upp það sem af er Þjóðhátíð samanborið við 37 mál í fyrra. Magn fíkniefna nær ekki hundrað grömmum að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum en var um 300 grömm á sama tíma í fyrra. Lögregla segir færri gesti mögulega útskýra þessa fækkun fíkniefnamála en einnig hefur stíft eftirlit lögreglu mögulega fælt einhverja óprúttna aðila frá. Þjóðhátíð hefur annars gengið vel en í nótt var engin líkamsárás tilkynnt og engin kynferðisafbrot hafa komið á borð lögreglunnar.

Á Akureyri hafa engin fíkniefnamál komið upp um helgina, engar líkamsárásir og engin kynferðisbrotamál. Þar hafa um 12 þúsund gestir skemmt sér í góðu veðri og mun hápunktinum verða náð í kvöld þegar haldið er hið árlega Spariball og að því loknu verður flugeldasýningu skotið upp utan af sjó.

Á Siglufirði hafa um sex þúsund manns skemmt sér á Síldarævintýri. Þar hefur aðeins eitt minniháttar fíkniefnamál komið upp en engar líkamsárásir eða alvarleg atvik.

Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum hefur einnig farið vel fram, þar hafa engin fíkniefnamál komið upp heldur bara orkudrykkir og líf og fjör að sögn lögreglu. Keppni á landsmótinu lauk í dag og mun mótinu vera slitið á íþróttavellinum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×